Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 723, 130. löggjafarþing 460. mál: tollalög (landbúnaðarhráefni).
Lög nr. 134 19. desember 2003.

Lög um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 1. mgr. 6. gr. laganna bætist nýr töluliður er verður 3. tölul., svohljóðandi, og breytist röð annarra töluliða samkvæmt því: Af landbúnaðarvörum sem bera magntoll (A1-tollur) samkvæmt viðauka I við lög þessi og sendar eru tímabundið hingað til lands til aðvinnslu samkvæmt nánari skilyrðum þessa töluliðar. Vörurnar skulu endursendar úr landi að lokinni aðvinnslu eigi síðar en sex mánuðum eftir komudag flutningsfars til landsins.
     Landbúnaðarráðherra getur veitt lögaðilum, sem stunda umfangsmikla fullvinnslu í atvinnuskyni á innfluttum landbúnaðarvörum til endurútflutnings, heimild til tímabundins innflutnings landbúnaðarvara samkvæmt þessum tölulið.
     Verði vara ekki flutt úr landi innan tímafrests skv. 1. mgr. þessa töluliðar skal innflytjandi greiða toll af vörunni eins og mælt er fyrir um í viðauka I með lögum þessum.
     Leyfishafi skal greiða kostnað við tolleftirlit með vörum sem fluttar eru tímabundið til landsins samkvæmt þessum tölulið.
     Landbúnaðarráðherra skal afturkalla leyfi skv. 2. mgr. þessa töluliðar fari leyfishafi ekki að fyrirmælum um framkvæmdina.
     Landbúnaðarráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skilyrði tímabundins innflutnings til aðvinnslu samkvæmt þessum tölulið, m.a. um það hverjir geti sótt um undanþágu, aðgreiningu innflutts hráefnis til vinnslu fullunninna vara fyrir innanlandsmarkað og til útflutnings, nýtingarhlutfall hráefnis við vinnslu, lágmarkskröfur um bókhald leyfishafa og upplýsingagjöf leyfishafa til landbúnaðarráðherra og tollyfirvalda. Hann getur gert það að skilyrði lækkunar eða niðurfellingar að lögð sé fram fullnægjandi trygging fyrir greiðslu aðflutningsgjalda.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 15. desember 2003.